laugardagur, 30. mars 2013

Nýr kafli

Það hefur ýmislegt gerst síðan ég skrifaði hérna inn síðast. Við Ernir kláruðum bæði skólann í lok janúar og fögnuðum því í faðmi fjölskyldunnar sem kom og heimsótti okkur hingað út. Og þar með byrjaði nýr kafli í okkar lífi ;o)

Febrúar mánuður var mánuður afslöppunar og leti. Við vorum bæði heima og nutum þess að vera saman og hafa það gott. Pökkuðum dótinu okkar niður í kassa og gerðum klárt fyrir flutninga. Við ákváðum að það væri best fyrir okkur að vera áfram í Álaborg þar sem að Ernir fékk tilboð um vinnu. Vinnu sem honum þótti spennandi og með góð laun. Og þar sem að vinnumarkaðurinn á Íslandi er ekki spennandi þessa dagana þá ákváðum við að vera áfram í Álaborg í allavega ár og skoða svo stöðuna aftur.
Ég er hinsvegar enn í atvinnuleyt. Og ef ég á að vera alveg hreinskilin, þá er ég ekkert allt of bjartsýn. Hef mínar ástæður fyrir því, en ég dunda mér þá bara hérna heima við allskonar föndur :o) Mér er allavega ekki farið að leiðast enþá. Ernir kvartar reyndar stundum yfir því hvað ég tala mikið þegar hann kemur heim úr vinnunni. En þá er ég yfirleitt búin að vera ein heima allan daginn...

Nú erum við búin að vera hérna í nýju íbúðinni í mánuð og líkar bara vel. Stór og mjög björt íbúð á þriðju hæð í rólegu hverfi. Útsýnið er mjög gott og get ég alveg eytt tímanum í að horfa út um gluggann á umferðina, mannlífið og náttúruna. Matvörubúðin er hérna hinumegin við götuna, strædó stoppar beint fyrir framan hjá okkur og svo er sundlaug/íþróttahús í 10 mín göngufæri. Mér finnst þetta æði! :o)
Það fer sem sagt mjög vel um okkur hérna, og það er nóg af plássi :o)


Páskafríið hefur farið nokkuð vel í okkur. Ég er þó búin að vera frekar kvefuð og með hálsbólgu, en ég er öll að koma til. Við erum búin að hafa það voðalega notalegt og á morgun munum við hafa það gott hjá Didda og fjölskyldu. Páskaeggin bíða okkar inn í skáp og aldrei þessu vant bíð ég spennt eftir að fá að opna það á morgun :o)

Ég vona að þið séuð ekki alveg búin að gefast upp á mér. Ég ætla ekki að lofa neinu um skrif, þar sem að ég er farin að þekkja sjálfa mig aðeins betur. En ég vona samt að ég muni verða duglegri við að setja eitthvað hérna inn. Þið megið líka alveg vera dugleg við kommenta og láta vita af ykkur hérna inni. Það er stór hvatning fyrir mig til þess að halda áfram að skrifa ;o)

Vonandi hafið þið það sem allra best 
Kv. Tinna Rut