Á fimmtudaginn, uppstigningardag, fórum við í smá ferðalag með Hafdísi og Karólínu (á nýja bílnum sem Ernir keypti á meðan ég var á Íslandi :o) ). Við byrjuðum á því að keyra til Århus til að skoða íbúð sem Hafdísi stóð til boða. Hún ætlar nefninlega að yfirgefa okkur í haust og flytja til Århus. Við keyrðum aðeins um bæinn og héldum svo yfir á Djursland sem er norð-austur frá Århus, svo ég reyni nú að vera góð í landafræðinni ;o) Við höfðum aldrei komið á það landsvæði og vissum í rauninni ekkert hvert við ættum að fara og hvað við ættum að skoða. En við enduðum í dýragarði, Skandinavisk dyrepark. Þar löbbuðum við heilmikið og skoðuðum dýrin og sáum þegar var verið að gefa skógarbirnunum, ísbjörnunum og úlfunum að borða. Þetta er ekkert rosalega stór dýragarður, en hann er mjög opinn og maður labbar inni hjá þeim dýrum sem er óhætt að vera hjá. Við vorum líka svo heppin að það voru bæði ungar hjá skógarbirninum og ísbirninum sem var mjög gaman að fylgjast með. Skógarbjörninn á myndinni heitir Brynhildur og hún fékk fjóra unga í byrjun árs, en það er frekar sjaldgjæft að það komi fjórir í einu.
Eftir að hafa eytt nokkrum klukkutímum í dýragarðinum keyrðum við áfram með viðkomu á nokkrum misspennandi stöðum og komum svo heim að kvöldi til.
Áttum yndislega og langa helgi í rólegheitum. Ernir er svo bara alltaf að vinna og ég dútla mér eitthvað heimavið á meðan. Þessa vikuna er búið að rigna ansi mikið, en ég vona að sólin fari að láta sjá sig fljótlega svo ég geti farið út á svalir með nýju sólstólana mína ;o)
