miðvikudagur, 12. júní 2013

Jákvæð í dag :o)

Í morgun dreif ég mig loksins í sund. Ernir keypti miða fyrir mig fyrir að verða tveimur mánuðum og þeir hafa bara fengið að liggja síðan (hann fær afsláttarmiða í gegnum vinnuna). Og mikið rosalega var gott að komast og synda smá. Ég fann það alveg hvað þetta var hressandi bæði fyrir líkama og sál. Ég hjólaði svo glöð heim, tilbúin að takast á við daginn og hugsaði að nú skyldi lífið tekið með trompi þangað til að alvaran byrjar í haust.  Já það þýddi sko ekkert að sitja bara á rassgatinu fyrir framan tölvuna og gera ekki neitt! Slut, sprut...búið!!! Nú skal sko saumað, föndrað, endurskipulagt, farið í gegnum allskonar dótarí sem þarf að koma skipulagi á og notið lifsins þess á milli :o)
En eftir að hafa eldað mér dýrindis heimatilbúnar fiskibollur í hádegismat neyddist ég til þess að setjast hérna fyrir framan tölvuna og skoða atvinnuauglisýngar og senda allavega tvær af stað (annars fæ ég ekki bæturnar mínar). Og mikið rosalega er það niðurdrepandi! Góða skapið mitt hvarf og ég finn það hvernig ég er að detta aftur í holuna sem ég hoppaði upp úr í morgun. Já það þarf ekki mikið til :o/ 

En þá er bara að hlaupa frá brúninni aftur, eða ég hugsa að það reynist betur að labba hægt og rólega. Eitt verkefni á dag, ætti að koma manni eitthvað áfram og vonandi í þá rútínu sem mig langar að vera í. Svo gildir það bara að vera jákvæður og halda áfram þó svo að letin geri vart við sig....

Sundlaugin er þarna í stóra gráa húsinu. Myndin er tekin út um eldhúsgluggann, svo það er nú ekki langt að fara :o) Næsta ferð verður á föstudaginn og ég er strax farin að hlakka til ;o)

Tú dú listinn er orðinn ansi langur og fyrsta mál á dagskrá er að sauma gardínukappa sem ég var búin að lofa að gera. 

Með bros á vör
kv. Tinna Rut

mánudagur, 3. júní 2013

Það hefur nú ekki verið mikið að gerast hérna hjá okkur undanfarnar vikur. Ernir er alltaf í vinnunni og ég sit heima og dunda mér eitthvað. Mér verður þó yfirleitt ekkert voðalega mikið úr verki og það fer ótrúlega mikill tími í að horfa út í loftið og spá og spekulera. Stundum get ég orðið mjög svo pirruð á sjálfri mér, en það er þó ekki nóg til þess að koma mér af stað í að gera hlutina :o( Mig sárvantar stundum spark í afturendann! En ég má þó eiga það að heimilisstörfin sitja ekkert á hakanum og ég er ótrúlega dugleg (þó ég segi sjálf frá) að taka til, þrifa og svo hef ég bakað svolítið. Viljinn og löngunin til þess að gera allskonar handavinnu er þó alveg til staðar. Það er bara allt of erfitt að byrja. Og þessi tölva er ekki að hjálpa til, því hún er algjör tímaþjófur! Já svei mér þá ef ég er ekki bara að dottin ofan í stóra letiholu í þessu atvinnuleysi. 

Tekið út um eldhúsgluggann eitt kvöldið 


Við Ernir höfum þó alveg verið að njóta helganna saman. Og yfirleitt gerum við eitthvað skemmtilegt. Við til dæmis fylgdumst með Karnivali hérna í Álaborg, fórum á vorgrill hjá íslendingafélaginu, horfðum á Eurovision, fórum á risastóran útimarkað með fullt af allskonar drasli og svo erum við búin að fara tvisvar á ströndina í æðislegu veðri. 
Við höfum verið annsi heppin með veður síðustu helgar. Það er búið að vera sól, hiti (þó mis mikill) og ekkert voðalega mikill vindur. En stundum er samt mjög gott að hafa vindinn því við erum enþá það miklir íslendingar að við þurfum svolítinn tíma til þess að venjast þessum hita. Já ég held ég geti bara ekkert kvartað undan veðrinu, þó svo að það sé ekkert alltaf gott á virkum dögum. En það er nú allt í lagi.....

Raps-akur. Tekið á leið til Blokhus á ströndina

Ég vona að þið séuð að njóta sumarsins heima á Íslandi. 
kv. Tinna Rut

miðvikudagur, 15. maí 2013

Bíltúr....


Á fimmtudaginn, uppstigningardag, fórum við í smá ferðalag með Hafdísi og Karólínu (á nýja bílnum sem Ernir keypti á meðan ég var á Íslandi :o) ). Við byrjuðum á því að keyra til Århus til að skoða íbúð sem Hafdísi stóð til boða. Hún ætlar nefninlega að yfirgefa okkur í haust og flytja til Århus. Við keyrðum aðeins um bæinn og héldum svo yfir á Djursland sem er norð-austur frá Århus, svo ég reyni nú að vera góð í landafræðinni ;o) Við höfðum aldrei komið á það landsvæði og vissum í rauninni ekkert hvert við ættum að fara og hvað við ættum að skoða. En við enduðum í dýragarði, Skandinavisk dyrepark. Þar löbbuðum við heilmikið og skoðuðum dýrin og sáum þegar var verið að gefa skógarbirnunum, ísbjörnunum og úlfunum að borða. Þetta er ekkert rosalega stór dýragarður, en hann er mjög opinn og maður labbar inni hjá þeim dýrum sem er óhætt að vera hjá. Við vorum líka svo heppin að það voru bæði ungar hjá skógarbirninum og ísbirninum sem var mjög gaman að fylgjast með. Skógarbjörninn á myndinni heitir Brynhildur og hún fékk fjóra unga í byrjun árs, en það er frekar sjaldgjæft að það komi fjórir í einu. 
Eftir að hafa eytt nokkrum klukkutímum í dýragarðinum keyrðum við áfram með viðkomu á nokkrum misspennandi stöðum og komum svo heim að kvöldi til.
Áttum yndislega og langa helgi í rólegheitum. Ernir er svo bara alltaf að vinna og ég dútla mér eitthvað heimavið á meðan. Þessa vikuna er búið að rigna ansi mikið, en ég vona að sólin fari að láta sjá sig fljótlega svo ég geti farið út á svalir með nýju sólstólana mína ;o) 


þriðjudagur, 30. apríl 2013

Ísland

Síðustu tvær vikurnar hef ég verið á Íslandi. Ég á svo yndislega froreldra sem buðu mér í heimsókn heim til Íslands með viku fyrirvara. Sandra systir lét skíra yngstu dóttirina sem fæddist í endaðan janúar, pabbi átti afmæli og mamma var í fríi. Tímasetningin var því ansi góð og ég gat auðvitað ekki hafnað þessu tilboði. Ég sá Rakel Rós í fyrsta skipti, yndisleg og brosmild og bræddi frænku sína alveg. Eldri sistkyni hennar tvö hafa stækkað töluvert og ég finn það svo vel í hvert skipti sem ég sé þau, hvað tíminn líður hratt! :o/


Ég náði ekkert að skrifa hér inn áður en ég fór, enda var margt sem þurfti að gera á þessari viku. Ég saumaði td. þennan kjól á Rakel Rós og gaf henni í skírnargjöf. Ég kláraði að perla það sem ég var byrjuð á og tók upp heklunálina og byrjaði á teppi (sem ég var reyndar fljót að leggja til hliðar aftur). En meira um það seinna.

Það er alltaf jafn gaman að koma heim til Íslands og hitta fjölskylduna og vini. En því miður náði ég ekki að hitta næstum því alla sem mig langaði að hitta og sumum náði ég bara rétt aðeins að heilsa. En maður verður víst bara að taka því, kannski ég fari að plana svona allt betur fyrir næstu heimsókn ;o) Ég náði þó að gera heilmargt og naut þess að vera heima á Hólmavík í afslöppun :o)

Ég fékk að æfa mig í að skrifa með súkkulaði. Hafði ekki gert það í nokkur ár og sé að ég þarf að æfa mig betur til þess að ná betri stjórn á þessu. 

Við mamma gerðum kleinur. Mmmm....nýbakaðar kleinur eru eitt það besta sem maður fær!

Ég komst líka loksinns í fjárhúsin og hitta kindina mína. Hún er nú annsi stigg, enda er enginn sem kemur til þess að klappa henni. Ég náði ekki almennilegri mynd af henni svo ég læt bara þessa í staðin :o)
Mér finnst yndislegt að fara í fjárhúsin. Finna lyktina, klappa kindunum, hjálpa til við að gefa og fylgjast með kindunum. Heyra háfaðann sem kemur þegar er opnað inn í hlöðu og þögnina á eftir þegar allar hafa þær fengið að borða. Ohh hvað ég vildi að ég kæmist í sauðburð....

Það var margt annað brallað á klakanum og margt sem verður að bíða betri tíma. Ég fékk fullt af góðum íslenskum mat sem er alltaf  á óskalistanum þegar ég kem heim. Fytjaði upp á peysu og fékk smá prjónakennslu og svo var stjanað við mig eins og fólkinu mínu einu er lagið ;o)

Mikið óskaplega hlakka ég til að koma aftur heim! 
Takk kærlega fyrir mig :o)

þriðjudagur, 2. apríl 2013

Hama perlur

Rétt fyri páska uppgötvaði ég perlur og perluplötur aftur. Hef ekki leikið mér með svoleiðis síðan ég var krakki. Þetta er núna nýja æðið mitt :o) Ég er búin að dunda mér við að perla yfir páskana og finnst það svo huggulegt. Ernir gerir bara grín af mér og spyr hvað ég sé eiginlega gömul. En mér finnst þetta bara mikið betra en td. að hanga fyrir framan sjónvarpið eða tölvuna heilu og hálfu dagana.


Það eru til þrjár stærðir af Hama perlum, mini, midi og maxi perlur. Midi perlur eru þær sem eru mest þektar og eru til á mörgum barnaheimilum og leikskólum. Maxi eru stórar og eru fyrir minnstu börnin og svo koma mini perlurnar sem eru ætlaðar fyrir 10 ára og eldri. 
Ég byrjaði að perla með midi perlunum (nedsta myndin til hægri), en ég varð líka að prófa mini perlurnar. Þær eru svo litlar og fínar. Þær krefja aðeins meira en hinar perlurnar og mér finnst það ótrúlega gaman. Eggin tvö á myndinni efst til hægri eru perluð eftir sama munstrinu. Stærra er með midi perlum og hitt með mini. Þetta er svo títuprjónn þarna við hliðina á, svona til þess að sjá stærðina betur. Fjólublái hundurinn er  gerður með mini perlum. 
Ég á pott þétt eftir að dunda mér við að perla meira á næstu vikum. Þetta er lúmst gaman :o) Ég er samt líka farin að huga að því að það sé kominn tími á að taka saumavelina upp og sauma eitthvað. Ég á líka prjónaverkefni ofan í poka sem þarf að klára en mig langar líka að taka heklunálina fram og athuga hvort ég muni hvernig á að hekla. Það er svo allt of margt sem mig langar að gera þessa dagana og helst langar mig að gera allt á sama tíma.... En ef ég hætti að horfa út í loftið (sem ég geri allt of mikið af), þá ætti ég nú alveg að ná að gera mikið af þessu á næstu mánuðum ;o) Sjáum til hvað verður....

Eigið góðan dag 
Kv. Tinna Rut

laugardagur, 30. mars 2013

Nýr kafli

Það hefur ýmislegt gerst síðan ég skrifaði hérna inn síðast. Við Ernir kláruðum bæði skólann í lok janúar og fögnuðum því í faðmi fjölskyldunnar sem kom og heimsótti okkur hingað út. Og þar með byrjaði nýr kafli í okkar lífi ;o)

Febrúar mánuður var mánuður afslöppunar og leti. Við vorum bæði heima og nutum þess að vera saman og hafa það gott. Pökkuðum dótinu okkar niður í kassa og gerðum klárt fyrir flutninga. Við ákváðum að það væri best fyrir okkur að vera áfram í Álaborg þar sem að Ernir fékk tilboð um vinnu. Vinnu sem honum þótti spennandi og með góð laun. Og þar sem að vinnumarkaðurinn á Íslandi er ekki spennandi þessa dagana þá ákváðum við að vera áfram í Álaborg í allavega ár og skoða svo stöðuna aftur.
Ég er hinsvegar enn í atvinnuleyt. Og ef ég á að vera alveg hreinskilin, þá er ég ekkert allt of bjartsýn. Hef mínar ástæður fyrir því, en ég dunda mér þá bara hérna heima við allskonar föndur :o) Mér er allavega ekki farið að leiðast enþá. Ernir kvartar reyndar stundum yfir því hvað ég tala mikið þegar hann kemur heim úr vinnunni. En þá er ég yfirleitt búin að vera ein heima allan daginn...

Nú erum við búin að vera hérna í nýju íbúðinni í mánuð og líkar bara vel. Stór og mjög björt íbúð á þriðju hæð í rólegu hverfi. Útsýnið er mjög gott og get ég alveg eytt tímanum í að horfa út um gluggann á umferðina, mannlífið og náttúruna. Matvörubúðin er hérna hinumegin við götuna, strædó stoppar beint fyrir framan hjá okkur og svo er sundlaug/íþróttahús í 10 mín göngufæri. Mér finnst þetta æði! :o)
Það fer sem sagt mjög vel um okkur hérna, og það er nóg af plássi :o)


Páskafríið hefur farið nokkuð vel í okkur. Ég er þó búin að vera frekar kvefuð og með hálsbólgu, en ég er öll að koma til. Við erum búin að hafa það voðalega notalegt og á morgun munum við hafa það gott hjá Didda og fjölskyldu. Páskaeggin bíða okkar inn í skáp og aldrei þessu vant bíð ég spennt eftir að fá að opna það á morgun :o)

Ég vona að þið séuð ekki alveg búin að gefast upp á mér. Ég ætla ekki að lofa neinu um skrif, þar sem að ég er farin að þekkja sjálfa mig aðeins betur. En ég vona samt að ég muni verða duglegri við að setja eitthvað hérna inn. Þið megið líka alveg vera dugleg við kommenta og láta vita af ykkur hérna inni. Það er stór hvatning fyrir mig til þess að halda áfram að skrifa ;o)

Vonandi hafið þið það sem allra best 
Kv. Tinna Rut

fimmtudagur, 20. desember 2012

Jólaskraut og ullarsokkar


Á þessu heimili hefur jólaskrautið fengið að gleðja okkur siðan 1. desember. Mér finnst svo huggulegt að hafa jólaskraut, það gerir aðeins meiri jólastemningu. 


Jólakrúttin min eru í miklu uppáhaldi :o)


Þó svo að snjórinn sé að mestu farinn, þá er enþá mjög kalt. Ég var svo heppin að mamma prjónaði þessa fínu ullarsokka fyrir mig. Nú verður mér allavega ekki kalt á tánum :o)

Við Ernir verðum hérna í Álaborg um jólin. Okkur fannst of stressandi að fara að ferðast heim þegar við erum bæði að vinna í lokaverkefnum. 
Erni gengur nokkuð vel með sitt verkefni. Hann fékk allavega að vita að hann mætti alveg njóta jólanna og slappa af. Mitt verkefni gengur aðeins hægar. Ég mun sitja og gera eitthvað yfir jólin. Jóladagarnir verða þó að mestu frí, smá broderí og teikningar verð ég þó að gera. Ég er svo sem ekkert orðin mjög stressuð yfir því að ná ekki að skila. En ég veit að núna verð ég að halda vel áfram. Það er bara svo margt sem að heillar meira en skólaverkefni.

En ætli það sé ekki best að drífa sig í skólann. Teikning af kjólamunstri er á dagskrá í dag. 
Ég vona að þið munið eiga yndisleg og gleðileg jól :o)
Kv. Tinna Rut