föstudagur, 10. desember 2010

Jólahugga

Á hverjum degi þegar ég kem heim, kveiki ég á tölvunni og stilli á jólastjarnan.net og hækka vel. Ég er búin að setja seríu í stofugluggann, hengja upp jólaskraut í gluggann, hengja nokkrar jólakúlur í loftljósið yfir eldhúsbekknum og stilla nokkrum jólastyttum í hillurnar. Við erum líka búin að fjárfesta í gervijólatré sem verður still upp og skreytt á Þorláksmessu :) Þannig að það er að verða nokkuð jólalegt hérna hjá okkur. Og ekki skemmir fyrir að hafa allan snjóinn úti. Ég náði líka að baka tvær sortir af smákökum á miðvikudaginn og ég er eiginlega búin að kaupa allar jólagjafir. Það má því segja að allt sé að verða klárt fyrir jólin. En jólaskapið er ekkert allt of mikið, það svona kemur og fer. En það kemur allt saman á endanum :)

Námskeiðið gengur vel. Við erum á fullu í að gera okkur framtíðsplan, plan A, B og C. En það er allt í fínu hjá mér þar sem að ég ER KOMIN INN Í SKÓLA og byrja í febrúar :) þ.e. ef ég fæ námslán fyrir þessu öllu saman. Ég var sem sagt í viðtali í Tekstilhåndværkerskolen í dag, hann er staðsettur hérna í miðbænum. Þetta er einkarekinn skóli og þess vegna eru skólagjöld í skólann og þau eru frekar há. Og svo kemur efniskostnaður ofan í það líka. Gleði gleði! En vonandi er þetta þess virði og ég geti kallað mig klæðskera eftir rúm tvö ár :) 

Skólinn hjá Erni gegnur held ég bara vel. Þeir (grúbban hans) eru búnir að skrifa verkefnið sem þeir hafa verið að vinna að alla önnina og eiga að skila núna 21. desember. Næsta vika mun að mér skilst fara í það að yfirfara og leiðrétta. Og svo eru prófin í janúar, þannig að jólafríið hjá honum mun að mestu fara í það að læra. 

Um helgina ætla ég að hafa það huggulegt heima hjá mér og jólast. Vona að þið munið líka hugga ykkur aðeins ;o)

Kv. Tinnslan

sunnudagur, 28. nóvember 2010

Fyrsti í aðventu

Í dag er fyrsti sunnudagur í aðventu. Það þýðir að það er bara ekki svo langt til jóla. Jólaskapið mitt datt niður eftir að ég kom aftur hingað út til Álaborgar, eftir að hafa verið heima á Íslandi í tæpar þrjár vikur. En ég hef þó verið að hlusta á jólalögin síðustu daga á meðan ég bardúsa eitthvað hérna heima. Ég náði líka að kaupa fyrstu jólagjafirnar í vikunni, svo þetta fer örugglega allt að koma. Jólaskapið verður komið áður en ég veit af og jólaundirbúningurinn kominn á fullt. Ég er jafnvel að hugsa um að skreyta aðeins hérna á morgun. Ég þreíf svolítið í dag og bjó til kertaskreytingu. Ákvað að það yrði ekki neinn aðventukrans gerður þetta árið. En langaði þó að fá smá greni inn á heimilið svo ég skellti mér í það að gera skreytingu í dag.


Á þriðjudagsmorgunn var allt orðið hvítt þegar ég vaknaði. Það var svo ótrúlega gaman að fá snjóinn hingað. Og hann hefur ekki farið enn, það bætist bara meira við þar sem að það einmitt kingir niður snjó núna :) Það eru svo eitthvað notalegt að horfa út um gluggann og horfa á snjóinn falla niður. En það er líka ótrlúlega kalt úti og svolítil hálka sumstaðar. Ég veit ekki alveg hvernig þetta verður á þriðjudaginn þegar ég þarf að hjóla á námskeiðið. Ég er pínu smeik við að hjóla í snjó, en það er örugglega bara af því að maður er ekkert vanur því. Þeir eru nú samt dugleigir að salt hérna eins og sést á skónum okkar. En það er bara að fara varlega!

Svona leit garðurinn okkar út á þriðjudaginn :)

Eigið góða viku :o)

fimmtudagur, 21. október 2010

Kuldi og jólaskap

Það er orðið ótrúlega kalt úti. Samkvæmt veðurstofunni eru 4,4 gráður hérna í Álaborg. Birrrr.... :ol Ég held að það verði ekki langt þangað til að ég taki fram úlpuna mína. Og ég verð eiginlega að viðurkenna að mig hlakkar barasta pínulítið til að fara að nota hana aftur :o) Ég er líka farin að fá það á tilfinninguna að það eigi að vera snjór úti. Og stundum verð ég frekar svekt þegar ég kíki út og sé rigningu í staðin fyrir snjó. Mér finnst ekkert gaman af rigningu...

Ég er komin í svolítið jólaskap. Er aðeins farin að huga að jólagjöfum og jólunum sjálfum. Búðirnar eru líka að byrja að setja upp jólaskraut í hillurnar og ég má hafa mig alla við að freistast ekki til þess að kaupa það. Ég er svolítið veik fyrir jólaskrauti og langar i svo margt. Ég er búin að kaupa tvö jólaskraut í þessum mánuði, en ætli fleira bætist ekki við þegar nær dregur jólum og jólaskapið hellist algjörlega yfir mann. Hlakka til :o)

Í vikunni fékk ég bréf með póstinum. Á mánudaginn á ég að byrja á fimm vikna námskeiði. Það á eitthvað að hjálpa mér við að finna út hvað mig langar að læra og hjálpa mér af stað í atvinnuleit og eitthvað þvítengt, ef ég skilti þetta rétt. Ég er samt eiginlega búin að ákveða að sækja um í einum skóla hérna næsta haust. Á bara eftir að útvega mér umsóknarblaðið og rippa þessu af. Það einhvernvegin gerist stundum ótrúlega lítið þó svo að ég ætli mér margt.
En það verður fínt að fá smá rútinu og hafa eitthvað sem kemur manni upp úr rúminu á morgnanna. Það getur stundum verið erfitt.... Ég held að þetta verði bara fínt, ég reyni allavega að vera ekki of svartsýn á þetta.

Smá haust skreytingu í kertastjakann  

fimmtudagur, 14. október 2010

Undanfarnir dagar...

Svona héldum við upp á 10.10.10 :)

Á laugardaginn fórum við á Velkomstball hjá íslendingafélaginu. Það var fullt af fólki, en fáir sem við þekkjum. Enda þekkjum við ekki svo marga íslendinga hérna. Þetta var samt fínasta skemmtun :o)

Ég fór í vikunni í frysta skipti í sund hérna í Álaborg. Ég fór með Ninu og Bylgju. Það var ótrúlega gaman og ég er alveg viss um að ég eigi eftir að fara aftur fljótlega þó svo að það vanti alveg Heitan pott. Það er samt heitur pottur þarna inn í svona afslöppunarsvæði sem er bannað innan 18 ára aldurs. Hann er samt ekkert allt of heitur, en það gerir ekkert til. Það voru líka fjórar mismunandi sánur og heitur pottur úti. En hann var nú samt bara 28 gráður þegar við vorum þarna. Það var samt notalegt að komast í sund :)

Í gær fórum við Ernir og Hafdís í seinnipartsferð í Ikea. Það var æði hvað það var lítið af fólki þarna. Við vorum að koma þangað svona um kl 18, löbbuðum efrihæðina og fengum okkur svo kvöldmat á veitingastaðnum. Ég fékk mér kjötbollur sem voru ótrúlega góðar. Ég var/er alvarlega að hugsa um að mæta næst með dollu af rabbarbarasultu, svona til þessa að fullkomna máltíðina ;o) hihi. Haldið þið ekki að ég tæki mig vel út með dolluna? Ég fékk smat að vita að ég fengi að sitja ein ef ég léti verða af þessu. hihi :) Ég sakna svona heimilismats....islenskan mats mmmmm bjúgu, slátur, kjötfarsbollur. Ég fæ bara vatn í munninn....

Þetta er eitt af því sem kom með heim frá Ikea :)



Vona að þið hafið það gott :o)


miðvikudagur, 6. október 2010

Mufffins æði


Nokkrar möffinskökur urðu til i dag. Það ríkir eitthvað muffins æði á þessu heimili. Það er lika svo gaman að baka þessar litlu kökur :o)

Á sunnudaginn siðasta fórum við Hafdis í Stof og stíl (búð sem selur efni). Ég fékk mail um að það ætti að vera svona sýnikensla, eða eitthvað þess háttar. En ég get nú ekki sagt að þetta hafi verið merkilegt. Við allavega lærðum ekkert nýtt. En eyddum helling af tíma inn í búðinni að skoða efni og spá í hlutunum. Ég kom heim með smá í safnið mitt, sem stækkar óðum. Ég fór nefninlega aftur í dag og auðvitað kom ég heim með nokkra efnisbúta. Svo núna verð ég að fara að gera eitthvað úr þessu!
Finnst samt alltaf jafn undarlegt hvað ég get eytt miklum tíma inn í svona búðum. Mér finnst það æði þegar ég hef nógan tíma til þess að labba um, fram og til baka og skoða öll efnin . Spá í hvað ég gæti saumað úr þeim og föndrað. Hugmyndir fæðast og gleymast aftur, en poppa svo oft upp aftur seinna. Freistingarnar eru ansi miklar, stundum tekst mér nú samt að standast þær en ekki í dag. Eða hvað?
 

mánudagur, 4. október 2010

Genbrug

Við Hafdís skelltum okkur í genbrugs búða leiðangur á föstudaginn. Það eru svona búðir með notað dót eins og rauðakrossbúðir og góði hirðirinn. Það var svolítið gaman að koma inn í þessar búðir og sjá hvað er í boði. Það er samt allraf pínu spes lykt inn í svona búðum. Ekkert sérstaklega góð, en þolanleg svona rétt á meðan maður er þarna inni.

Ég fan mér nokkrar gamlar skeiðar og salatgaffal í einni búðinni. Það eru flott munstur á þeim, þó ekki það sama á öllum. Enda er ekkert sem segir að þær þurfi að vera alveg eins. Stærsta skeiðin er samt svolítið svört. Ég er búin að reyna að þrífa hana en ég held að þetta sé fast, en það gerir svo sem ekki mikið til. 10 krónur danskar fyrir þessi fínheit. Mér finnst það nú ekki mikið :o)

sunnudagur, 26. september 2010

Rólegheit...

Ég finn að haustið er komið. Það er orðið svo kalt úti, samt ekkert svo. Mér finnst eins og haustlitirnir eigi að fara að koma, en laufin eru rétt aðeins farin að gulna. Ég hef það líka á tilfinningunni að það eigi að fara að snjóa fljótlega. En ég efast stórlega um að það fari að gersast hérna í danaveldi þó svo að fjallatopparnir á Íslandi sé farnir að grána.
Í gær var mjög gott veður. Það var sól og hlítt, peysuveður sem var æði. Við Hafdís skelltum okkur í IKEA. Ég kom heim með nokkra hluti, þó ekki eins marga og ég bjóst við. Ég er örugglega sú lélegast í því að standast freistingar, enda sankast að mér allskonar hlutir....

Fann þetta efni í IKEA og gat bara ekki staðist það. Litríkt og flott munstur :o) Keypti mér líka lítið straubretti sem er sett á borð. Svo er krókur á því svo maður getur hengt það inn í skáp. Þeir eru svo sniðugir í IKEA ;o) Nokkur kerti í kertastjakann frá Köllu og muffinsform fengu líka að fljóta með heim. 

Í dag er ég búin að hafa það notalegt fyrir framan sjónvarpið og í eldhúsinu. Teiknimynd og kökuskreytingar.


Prófaði að gera sykurmassa úr sykurpúðum í fyrstaskipti. Það gekk ekkert allt of vel. Var ekki eins viðráðanlegur og marsipanið sem ég er mun vanari að vinna með. En ætli þetta komi ekki allt með æfingunni eins og flest annað. Ég á allavega góðan klump af sykurmassa inn í ísskáp sem ég get æft mig með. Ég endaði samt á því að ná í súkkulaðið og sprauta því á. Hugmyndaflugið ákvað hins vegar að vera í fríi í dag svo útkoman varð ekkert voðalega frumleg. En fin nok svona af tilefnislausum ástæðum ;o)

miðvikudagur, 22. september 2010

Rigning og meiri rigning...

Litil skuggamynd af kisa sem ég kláraði fyrir nokkrum dögum. Kannski pínu jólaleg...? allavega pínu krúttleg :)

Dagarnir renna svolítið saman þegar maður er bara heima í litlu ibúðinni og reynir að finna sér eitthvað að gera. Ekki það að ég á ekkert í vandræðum með að finna mér eitthvað að gera hérna heima. En það virðist vera ótrúlega erfitt að koma sér af stað í að gera hlutina. Sófinn og tölvan virðast hafa ótrúlegt aðdáttarafl. Ég er þó að dunda mér við ýmsa handavinnu og saumavelin mun koma upp í dag :) Þá kannski verður hún uppivið í nokkra daga....
Atvinnuleitin gengur ekkert voðalega vel. Ég sæki um og bíð svo eftir svari sem ég mun að miklum líkindum ekki fá, allavega hefur það verðið svoleiðis hingað til. En það þýðir ekki að fást um það, heldur bara að halda leitinni áfram.

Haustið er komið hingað, það er að vísu löngu komið, en maður hefur fundið svo mikið fyrir því síðustu dagana. Það er orðið svo kallt og það er búið að rigna í viku eða meira. Þó ekki alveg stanslaust, en eitthvað á hverjum degi. Í gær ringdi ekkert en það á víst að byrja að rigna aftur á morgun. Ég ætla því að nota tækifærið og hjóla í búðina í dag. Ég nenni því aldrei ef það rignir, allavega ekki þegar það rignir svona mikið eins og hefur verið. Ég er orðin pínu þreytt á þessari rigningu, finnst þetta orðið gott í bili.

miðvikudagur, 15. september 2010

Stutt vika

Ég hef oft sagt að danir séu skríttnir. Ég held að ég haldi mig bara við þá kenningu. Þetta var frekar stutt vika, svona allavega miðað við það að vikunámskeiðið sem ég var á er búið. Og það bara miðvikudagur vúhú! Ég get nú ekki sagt að ég hafi grætt mikið af þessu námskeiði. Upplysíngarnar um nám voru ekki miklar og miðaðar við fólk sem hefur aðeins lokið við grunnskóla. Jú ég lærði aðeins af upplysíngunum um hvernig eigi að sækja um vinnu. 
En svo græddi ég annað námskeið. 5 vikur til þess að taka ákvörðun um það hvað mig langi að læra og finna út úr því. Byrjar 21. eða 25. október. Ég er ekkert yfir mig spennt frekar enn fyrri daginn. En er þó bjartsýnni með þetta námskeið heldur en það sem ég var að klára. Þó finnst mér þetta óþarflega langur tími.
En annars langar mig á allt öðruvísi námskeið. Langar á handavinnunámskeið. Langar bæði á broderi námskeið og að læra að knippla. Ég held að það sé ótrúlega gaman. En þessi námskeið kosta aðeins, en samt kannski ekkert mikið miðað við það að þau eru alveg fram í febrúar. Og þar af leiðandi þori ég ekki að skrá mig þar sem ég veit ekki hvort ég fái vinnu fljótlega og hvenar dags sú vinna verður. 
Ég hef því ákveðið að geyma knipplið aðeins og leika mér með bróderíið hérna heima. Verst að mér verður svo lítið úr verki :o/ Þarf alltaf svo mikið annað að gera þó svo ég viti stundum ekkert hvað það er.


Einn lítill grísli sem ég saumaði um daginn. Hann er eitthvað svo frjáls og glaður :)

laugardagur, 11. september 2010

Já ég ákvað að gera mér nýja síðu svo ég geti notað myndir í bloggin mín. Það var ekki alveg að virka hjá mér á hinni síðunni. Og svo var mig líka farið að langa að skipta um umhverfi hérna á netheimum.
Ég hef ákveðið, eins og heiti síðunnar gefur til kynna að skrifa um allt og ekki neitt á þessari síðu. Það gerist nefninlega ekkert allt of mikið í mínu daglega líf til þess að skifa um. Svo ég mun bara skrifa um allt sem mér dettur í hug. Og nú tala ég eins og ég ætli mér að vera rosalega dugleg að blogga. Ég skal reyna, en ég ætla samt ekki að lofa neinu. Ég vil nefninlega ekki brjóta loforð, mér finnst það ekkert gaman ;o)

Síðan ég kom út hef ég setið rosalega mikið í sófanum. Ég hef hinns vegar gert ýmislegt. Horft á sjónvarpið, saumað í og lesið bók. En ætli ég hafi samt ekki mest setið fyrir framan þessa blessuðu tölvu. Þar er Facebook mesti tímaþjófurinn og finnst mér það alltaf jafn ótrúlegt hvað maður getur hangið þar inni og gert bara alls ekki neitt. En nýjasta æðið mitt er samt að skoða handavinnublogg og blogg hjá fólki sem finnst gaman að innrétta heimili. Mér finnst það æði og ég er sko búin að sjá fullt af sniðugu! :)

Atvinnuleitin hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel. Ég hef sótt um á fullt af stöðum en það er fátt um svör. En ef ég fæ svar þá er það um það að einhver annar af þeim 270 manns sem sótti um hafi fengið stöðuna.
Ég fór á miðvikudaginn og skráði mig atvinnulausa (hefði kannski átt að vera búin að því fyr) og sótti um atvinnuleysisbætur. Og þá var ég skráð á viku námskeið, 5 tíma á dag, vegna þess að ég sagðist ekki alveg vita hvað mig langaði að læra. Byrjar á mánudaginn kl 09:00 takk fyrir pent! :o/ Já já þetta verður bara fínt, ég fæ þá hjólatúr á hverjum degi :) Og fæ kannski smá hjálp í þessari atvinnuleyt í leiðinni.

Ég hef sett inn myndir á myndasíðuna mína. En þið finnið tengil á hana hérna til hliðar. Ég hef verið annsi léleg í að taka myndi. Ég er eiginlega pínu fúl við sjálfa mig yfir því hvað ég tók lítið af myndum í sumar :( En ég átti frábært sumar og gerði ýmislegt skemmtilegt heima á Ísalndi. Eins og alltaf leið tíminn allt of fljótt og helmingurinn af því sem maður ætlaði sér að gera verður að bíða betri tíma. En svona er það bara!

Krúsídúllurnar mínar :)

Við pabbi og mamma fórum í smá ferðalag. Hérna erum við í kvöldgöngu á Laugum þar sem að við gistum eina nótt. 

Áfram hélt ferðalagið og var næsti áfangastaður Dimmuborgir. Við löbbuðum þar um og skoðuð ýmislegt. Keyrðum svo á Vopnafjörð, yfir Hellisheiði eystri og enduðum á Eskifirði þar sem við vorum yfir helgi.

Ég fór með Söndru og krökkunum í Árneshreppinn. Það er alltaf jafn gaman að koma þangað og endalaust fallegt. Við byrjuðum á því að fara í sund og fórum svo í fjöruna í Norðurfirði. Ísak Logi óð upp að hnjám og við Birgitta lékum við hundinn í Steinstúni. Sandra tók myndir og hló. Það er alltaf svo gaman hjá okkur ;o)

Ég skellti mér svo á ball með fullt af skemmtilegu fólki þar sem Geirmundur lék fyrir dansi. Hitti annað skemmtilegt fólk. Og skemmti mér rosalega vel. Eina myndin sem tekin var þetta kvöld er af foreldrum mínum á dansgólfinu. Þau eru yndi :o)

Læt þetta duga í bili
kv. Tinna Rut