fimmtudagur, 20. desember 2012

Jólaskraut og ullarsokkar


Á þessu heimili hefur jólaskrautið fengið að gleðja okkur siðan 1. desember. Mér finnst svo huggulegt að hafa jólaskraut, það gerir aðeins meiri jólastemningu. 


Jólakrúttin min eru í miklu uppáhaldi :o)


Þó svo að snjórinn sé að mestu farinn, þá er enþá mjög kalt. Ég var svo heppin að mamma prjónaði þessa fínu ullarsokka fyrir mig. Nú verður mér allavega ekki kalt á tánum :o)

Við Ernir verðum hérna í Álaborg um jólin. Okkur fannst of stressandi að fara að ferðast heim þegar við erum bæði að vinna í lokaverkefnum. 
Erni gengur nokkuð vel með sitt verkefni. Hann fékk allavega að vita að hann mætti alveg njóta jólanna og slappa af. Mitt verkefni gengur aðeins hægar. Ég mun sitja og gera eitthvað yfir jólin. Jóladagarnir verða þó að mestu frí, smá broderí og teikningar verð ég þó að gera. Ég er svo sem ekkert orðin mjög stressuð yfir því að ná ekki að skila. En ég veit að núna verð ég að halda vel áfram. Það er bara svo margt sem að heillar meira en skólaverkefni.

En ætli það sé ekki best að drífa sig í skólann. Teikning af kjólamunstri er á dagskrá í dag. 
Ég vona að þið munið eiga yndisleg og gleðileg jól :o)
Kv. Tinna Rut

miðvikudagur, 28. nóvember 2012

Hvíld :)

Akkurat núna sit ég upp í sófa og læt líða úr löppunum mínum. Finn alveg ótrúlega mikið fyrir þreytu í þeim núna, enda einn spinningtími búinn í dag ásamt því að standa mikið í skólanum. Er svo búin að þvo þvott, elda og baka bananabrauð eftir að ég kom heim. Ég hef bakað svolítið af bananabrauði í haust/vetur og finnst það alveg rosalega gott. Ernir heldur því fram að ég kaupi banana bara til þess að láta þá standa á borðinu svo ég geti bakað úr þeim. Veit ekki alveg hvort að það er satt. Finnst það samt ekkert verra ;o)
Léttbylgjan er farin að hjóma hérna nánast alla daga með jólalögin. Ég er líka búin að finna danska jólastöð sem fær að hljóma í útvarpinu í skólanum. Tók smá tíma að sannfæra stelpurnar um að fá að stilla á jólalögin, en þær viðurkendu nú samt stuttu seinna að þetta væri góð tilbreyting. Svo núna syngjum við allar með jólalögunum. Það hjálpar aðeins við að komast í smá jólaskap, en það vantar enþá snjóinn. Það er samt verið að spá snjókomu um helgina. Verð að viðurkenna að ég hlakka pínu til :o) Samt langar mig ekkert að hjóla í hálkunni, en snjórinn tilheyrir jólunum og það mun því koma mér í mikið meira jólaskap að hafa hvíta jörð! 
Mig langar svo mikið meira að vera heima og baka smákökur en að vera í skólanum. Einbeitingin hefur kannski ekki verið sú allra besta þessa vikuna, En ég er samt komin vel á veg með jakkann minn. Á morgun verður langur skóladagur, alveg fram á kvöld. Ég vona að ég nái langt og að þetta muni ganga aðeins hraðar fyrir sig. Stundum finnst mér ég ekki komast neitt áfram.... :o/

Ég hef ekki tekið neinar myndir af kápunni minni. Ég á líka eftir að sauma nokkrar tölur í og sauma eitthvað smátterí í höndunum. En kannski ég get ég tekið myndir af henni fljótlega, lofa samt engu ;o)

Kv. Tinna

sunnudagur, 11. nóvember 2012

Nokkrir dagar í prófverkefni....

Nú er alveg að koma að þessu. Á miðvikudaginn eigum við að skila kápunum og á fimmtudaginn fáum við prófverkefnið. Ég er bæði stressuð og spennt. Spennt að fá að vita hvaða innblástur við eigum að vinna út frá og fá að vita hvað það er nákvæmlega sem við eigum að gera. Ég veit að við eigum að gera teikningar af ca 15 flíkum og sauma þrjár. Einn jakka í líkingu við þann sem ég gerði um daginn, samkvæmiskjól og pils eða buxur. Og svo eru ýmsar kröfur um að hitt og þetta eigi að vera á þessum flíkum.
Stressið er aðalega yfir því að ná að gera allt á þeim tíma sem við höfum og að muna eftir öllum smáatriðunum sem skipta svo miklu máli. En ég er sanfærð um að ef ég næ að halda mér við efnið og einbeitingin verði í lagi, þá bjargast þetta allt með hjálp minnispunktanna minna :o) Svo gildir bara að vera pínu ströng við sjálfa mig.....


Ég er farin að hugsa mikið um jólin. Og hlakka ótrúlega til að geta farið að skreyta hérna heima og baka smákökur. Ég er búin að ákveða að þó svo að ég verði á fullu í að gera prófverkefnið mitt í jólatíðinni ætla ég samt að reyna að njóta jólanna og leyfa mér að taka smá tíma í að skreyta og baka. Það verðu bara ekki í eins miklu magni og hefur verið. Þetta verða nú samt pínu skrítin jól þar sem að ég verð ekki heima á Íslandi. En ég hef prófað það áður, svo núna veit ég nokkurvegin hvernig það er að vera að heiman yfir jólin. 
Ég keypti mér þessar jólakúlur um daginn í "genbrug". Það er svona búð eins og góði hirðirinn sem selur notað dót og föt. Það eru ótrúlega margar svoleiðis búðir hérna og hægt að finna margt sniðugt í þeim mörgum hverjum.
Í gær fórum við í langan verslunarleiðangur og keyptum eiginlega allar jólagjafirnar :o) Núna eigum við bara smátterí eftir og það er alveg ótrúlega góð tilfinning að það sé búið, þrátt fyrir að það sé alltaf gaman að fara og versla rétt fyrir jól í mestu jólastemningunni. Og bara við það að skirfa það kemmst ég í ótrúlega mikið jólaskap og hlakka mikið til þegar jólahúsin verða komin í miðbæinn, jólaljós og vonandi svolítill snjór. Jiii það líður örugglega ekki á löngu þangað til að ég verð farin að hlusta á jólalögin og skreyta. Enda flýgur tíminn áfram. Stundum skil ég bara ekkert hvert tíminn fer....

En ætli þetta sé ekki komið gott af jólatali núna. Held ég verði að fara og undirbúa morgundaginn. Það verður langur dagur í skólanum, alveg frá morgni til kvölds. Það gengur samt mjög vel með kápuna. Ég á "bara" eftir að sauma vasana, gera falin hnappagöt og sauma fóðrið við. Allt tekur þetta samt sinn tíma, þannig að það er best að hafa einbeitinguna í lagi ;o)

Þetta er hluti af bakstykkinu á kápunni minni. Kemur ótúlega vel út þó ég segi sjálf frá :o)

Hlakka til að sýna ykkur tilbúna kápu
Kv. Tinna Rut



þriðjudagur, 30. október 2012

Möppugerð og jakki


Í síðustu viku lærðum við í skólanum að gera möppur frá grunni. Það var ótrúlega gaman og margir möguleikar. Ég gerði líka enn lítinn grænan myndaramma sem getur staðið á borði :o) Ég hafði ekki hugsað út í það áður en við byrjuðum að það væri hægt að nota sömu tækni í að gera annað en möppur.... Möppugerð er eitthvað sem höfðar alveg til mín og ég á pott þétt eftir að gera meira af þessu :o)


Mappan með uglunum er lítil (17x12,5 cm). Við áttum að byrja á að gera svona litla svo við myndum læra tæknina. Svo máttum við gera það sem við vildum eftir það. Ég valdi auðvitað að gera ekki það auðveldasta og skar út fiðrildi sem tók svolítið langan tíma að gera. En ég er ótrúlega ánægð með útkomuna. Finnst mappan bara ótrúlega flott :o) Hún passar undir A4 stærð.

Við erum svo byrjaðar að gera frakka/kápu eða hvað sem þetta á nú að kallast. Ég er búin að teikna upp sniðið af því sem ég ætla að gera. En þar sem að ég ákvað að gera svolítið öðruvísi ermar þarf ég að gera saumaprufu fyrst. Það var samt mín hugmynd því ég vil ekki taka áhættuna ef þetta virkar nú ekki alveg hjá okkur kennaranum mínum. Við eigum svo að skila 14.nóvember og daginn eftir fáum við prófverkefnið okkar. Ég er orðin ansi stressuð, bæði fyrir prófinu en aðalega af því að það er margt sem ég þarf að ná að gera áður en við förum í próf. En með góðri skipulagninu ætti þetta að ganga, sérstaklega ef maður vinnur eftir planinu.... ;o) Það er því nóg að gera hjá mér og þess vegna veit ég ekki alveg hvað ég mun gefa mér mikinn tíma í að skrifa hérna inn næstu mánuðina.


Parnuuna (kennari) kom með myndavelina sína og allt sem henni fylgir í skólann og tók myndir af okkur. Hérna er ég í jakkanum mínum. Pínu kjánaleg mynd, en það er samt eitthvað flott við hana þó ég segi sjálf frá. Næst ætla ég samt ekki að vera í bláum bol innan undir, það er ekkert sérstaklega flott. En það var víst bara það sem ég var í þennan daginn í skólanum... :o)

Vona að þið hafið það sem allra best
Kv. Tinna Rut




mánudagur, 15. október 2012

Haustfrí

Þessa vikuna er haustfrí í skólanum. Ég tók nú samt að mér að hafa nemendalykilinn af skólanum því ég ætla mér að eyða fríinu í skólanum :o/ Það er fullt að gera, og þar sem að ég varð pínu eftirá er ég að reyna að vinna það upp. Þegar jakkinn var loksins tilbúinn varð ég veik og er enn að jafna mig á hálsbólgunni og hóstanum. Ernir er lika að vinna þessa vikuna og því hef ég í rauninni ekkert betra að gera en að vera í skólanum og reyna að gera eitthvað af viti. Einbeitingin er samt ekki sú besta, en vonandi lagast það. Finnst allavega miklu betra að vinna þegar stelpurnar eru ekki í skólanum....
Það voru teknar myndir af mér í jakkanum mínum og tveimur kjólum í skólanum á fimmtudaginn. Ég fæ þær vonandi í næstuviku og þá get ég kannski sýnt ykkur.
Annars er voðalega lítið að frétta, og þar af leiðandi hef ég ekkert að skrifa um í þetta skiptið :o/

Vona að þið hafið það sem allra best
Kv. Tinna

þriðjudagur, 2. október 2012

Langir dagar...

Uppsprettuhnífurinn minn var einn af mínum bestu vinum í síðustu viku. Þvílíkt bras með einn jakka! Þrátt fyrir að sitja frá morgni og langt fram á kvöld í skólanum að sauma dugði það ekki til þess að klára jakkann. En með aðstoð kennarans míns er þetta allt að hafast og ég sé fram á það að geta vonandi klárað hann á morgun :o)

Annar vasinn á jakkanum mínum. Blúnda, leður og bling bling 

Í síðustu viku var útsala í einni búð sem er eins og ein verslunarmiðstöð. 3 hæðir og þú getur keypt nánast allt þarna. Sumir voru virkilega að nýta sér tilboðin og það voru nokkrir sem voru á fullu að finna jólagjafir. Ég komst allavega í smá jólafíling sem var sem betur fer fljótur að fara aftur.
Ég ákvað að nýta mér tækifærið og keypti perlur á hálfvirði og prófaði að bræða þær í ofninum. Ein af föndurbloggurunum sem ég fylgist með gerði svona fyrir örugglega ári síðan og núna ákvað ég að láta verða af því að prófa sjálf. 

Útkoman var þessi litla skál :o)

Annars er allt fínt að frétta af okkur. Ernir er enn að vinna og finnst það frekar leiðinlegt að það er bara tvær og hálf vika eftir af starfsnáminu. Hann er í góðum gír þarna og langar helst ekkert að fara í skólann aftur. Ég berst áfram í stríði við sjálfa mig og veit að dagarnir fljúga áfram....

sunnudagur, 16. september 2012

Taka tvö

Ég er enn á lífi þrátt fyrir að lífið á þessari síðu sé ekki mikið. Ég hef hreinlega ekki haft mig í það að skirfa hérna inn þó svo að ég hugsi um það reglulega. En ég vona að það sé enþá einhverjir sem nenna að lít hérna við og vilja gefa mér annan sjéns :o)
Þessi önn verður samt mjög annasöm í skólanum. Núna er ég búin að vera að gera saumaprufur fyrir jakka og á morgun er ég að fara að byrja að gera munstur fyrir jakka sem ég á svo að sauma og skila eftir tvær vikur. Ég sé því fram á nokkra langa skóladaga. En ég ætla mér samt að reyna að standa mig í að skrifa hérna inn, þó svo að það verði ekki nema nokkrar línur í hvert skipti. Það væri því líka gott ef að ég fæ að vita svona annað slagið hvort það er einhver sem kíkir hingað inn ;o)

En lífið snýst að mestu um skólann þessa dagana. Þetta er þó búið að vera náttfatadagur í dag og erum við búin að sitja fyrir framan tölvurnar okkar í allan dag :o/ Það er sem betur fer (heilsunnar vegna) ekki oft sem að það gerist. En ég er búin að vera á fullu í að skoða föndursíðurnar sem ég er með vistaðar í tölvunni og er því búin að fá fullt af innblástri og hugmyndum í dag :o) Mig vantar bara meiri tíma til þess að koma þessu í framkvæmd. Það er líka svo erfitt að koma sér af stað í að gera eitthvað.... 

En í gærkveldi lærði ég brjóta fiðrildi í pappír og þá datt mér í hug að prófa að gera það í filt....

...og útkoman varð þessi :o)

Ég lærði líka að flétta band, svona einskonar reim eins og er í ýmsum fötum. En ég tók ekki mynd af því svo það verður að bíða betri tíma.
Ég vona að ég muni hafa smá tíma, eða geta gefið mér smá tíma til þess að föndra eitthvað smá svona inn á milli. En tíminn er bara svo rosalega fljótur að líða og áður en ég veit af verður örugglega kominn 15. nóvember. En það er dagurinn sem ég fæ prófverkefnið mitt. Reyni að hugsa sem minnst um það og tek einn dag í einu, eða réttara plana eina viku í einu. Og hugmyndin er sú að setja mér niður einn dag þar sem að ég skrifa hérna inn, þarf bara að finna út hvaða vikudagur hentar best....

Þangað til næst
Tinna

sunnudagur, 10. júní 2012

Kæra systir :o)

Takk fyrir að kommenta við hverja færslu sem ég skrifa. Það gleður mitt litla hjarta að einhver fari hérna inn og gefi sér tíma til að skrifa nokkur orð til mín ;o)

Af okkur er allt gott að frétta. Brjálað að gera í skólanum hjá mér og í vinnu/ skóla hjá Erni. Myndavelin hefur því miður verið lítið notuð síðust vikurnar. En vonandi bætist úr því ;o) 

Þessa dagana er ég á fullu í að sauma síðasta verkefnið á þessari önn. En það er kjóll með innbygðum brjóstahaldara. Er pínu eftirá og mun því eiga langa vinnudaga þessa vikuna. Skil eftir 9 daga og sýning eftir 11 og svo kemur langþrátt sumarfrí! :o)

Er búin að vera að festa blúndu á efnisstykkin min í dag, svo nú get ég farið að sauma þau saman. Hlakka til að sjá hver útkoman verður ;o)


Um daginn var karneval hérna í Álaborg. Við Ernir fórum á föstudagskvöldinu og sáum skrúðgönguna með þeim reyndu sem flakka a milli landa til þess að taka þátt í karnevölum. Á laugardeginum var svo aðal fylleríið þar sem að allir koma í búningum tengdum þema hvers árs og eru með í skrúðgöngunni. En við nenntum ekki að horfa á það og vorum því bara heima á læra á meðan :o)



 Við fórum líka í Legoland um daginn. Það var ótrúlega margt flott að sjá og skemmtilegir rússibanar. 
Áttum skemmtilegan og góðan dag þar :o) 
Alger munur að eiga svona góðan bíl og geta farið á milli landshluta ;o)

 


Hlakka til að sjá ykkur eftir ekki svo rosalega marga dag :o)





þriðjudagur, 15. maí 2012

Saltum Uldfestival og garðurinn minn

Á laugardaginn fór ég með Hafdísi til Saltum á ullarhátið. Þar var allt fullt af garni og öðrum ullarvörum ásamt tilheyrandi fylgihlutum. Svo leyndust aðrar vörur inn á milli í sölutjöldunum sem voru á staðnum. Mikið af freistingum sem erfitt var að standast. Ég stóðst þær margar en aðrar ekki..... Svona er þetta þegar maður heldur að maður getur gert allt þrátt fyrir að vera bara byrjandi í prjónaskapnum. Hugmyndirnar streyma inn en hendurnar fylgja engan vegin með, enda ekki mikill tími fyrir prjónana þessa dagana.

Garn, uppskrift, blúnda, tölur og skeið úr kúahorni voru þær freistingar sem ég stóðst ekki í þetta skiptið

Svona græjur langar mig að eignast í framtíðinni. Ohh það er svo yndislegt að sitja og vefa! Og ég efast ekki um að það sé gaman að geta spunnið sitt eigið garn líka :o)

Á sunnudaginn plantaði ég loksins blómunum mínum. Og svo keyptum við okkur þetta líka fína grill :o) Nú er garðurinn okkar aðeins sumarlegri og fínni ;o)

Á morgun er svo efnaleiðangur með skólanum. Spennandi að sjá hvort maður finnur eitthvað fínt ;o)

mánudagur, 7. maí 2012

Børglum klaustur og efnabúð

Fór í dag með skólanum að skoða Børglum kloster. Þar er meðal annars sýning af kjólum sem Anne Marie Helger á. Hún er leikkona og er þekkt fyrir að eiga mikið af mis furðulegum, en ótrúlega flottum kjólum sem hún hefur sjálf hannað. Ótrúlega gaman að sjá kjólana og maður getur alveg fengið innblástur frá þessari konu.

Þessi kjóll er meðal þeirra sem eru til sýnis. Ég gleymdi því miður myndavelinni minni og fékk því þessa mynd að láni frá stiften.dk (ég gogglaði bara nafinið hennar og þá koma fullt af myndum ef þið skylduð hafa áhuga á að skoða fleiri myndir af henni ).


Kaup dagsins í efnabúðinni sem við fórum í á leiðinni heim frá klaustrinu. Aðal málið var að kaupa brjóstahaldaraspangir til þess að nota í verkefnið. Allt hitt fékk bara að fljóta með í pokann ;o) 

Gat ekki staðist þennan frosk. Ótúlega krúttlegur með hjartað sitt! Hann hefur fengið pláss á hillunni minni :)

miðvikudagur, 2. maí 2012

Starfsnám og skóli

Eins og ég nefndi síðast þá gékk starfsnámið mjög vel. Ég fékk að gera alveg helling og það var sjaldan sem ég stóð og horfði á. Ég fékk t.d. að stytta og leggja upp buxur, þrengja föt, skipta um spangir í brjóstahaldara, sauma fyrir göt á fötum, leggja upp brúðakjól og spretta helling af saumum upp. Ég fékk líka að prófa tvær gerðir af iðnaðarvélum, sem mér fannst pínu spennandi.
Mér finnst ég hafa lært helling af því að vera þarna og er mjög sátt við að hafa valið þennan stað. Núna bíð ég bara og vona að hún hringi í mig og segjist vanta aðstoð. Það var svo gott að komast aðeins frá skólanum og vinna. Mig er pínu farið að hlakka til að útskrifast þó svo að mér finnist mjög gaman í skólanum.

Núna erum við að byrja á korselett með innbyggðum brjóstahaldara. Ég er enn að gera saumaprufurnar og svo fáum við verkefnið í endan af næstu viku. Það verður spennandi. Ég er ekki alveg búin að ákveða hvernig kjól ég ætla að gera, hvort hann verði þröngur eða með útvíðu pilsi... Kemur allt í ljós þegar ég verð búin að fá að vita hver innblásturinn er :o) Er svolítið spennt að komast að því....

þriðjudagur, 24. apríl 2012

Lakkrís vs Karamella

Lakkrís- og karamellu muffins

Á sunnudaginn ákvað ég að láta undan þeirri löngun að baka. Stundum bara verð ég að fá að baka eitthvað. Það hefur svo góð áhrif ;o) Sérstaklega ef það heppnast vel! :o) Ég varð samt fyrir vonbrigðum með þessar með lakkrís. Það er eitthvað við lakkrísduftið sem mér finnst skrítið, svolítið sérstak og væmið. En þessar með karamellu voru mjög góðar :o) Á örugglega eftir að baka þá uppskrift aftur.

Starfsnámið gengur mjög vel. Ég er búin að fá að gera alveg helling og fá að fylgjast með þegar kúnnar koma og máta kjóla sem þarf að laga. Ég hef líka komist að því að í þessum bransa verða hlutirnir að ganga hratt fyrir sig. En hraðinn kemur með æfingunni hef ég fengið að vita :o)

Ernir er líka sáttur í sinni vinnu. Hann hefur fengið nokkur verkefni sem hann á að vinna að næstu mánuðina. Hann er sem sagt að undirbúa verk sem á að framkvæma í sumar. Hann á að finna fólkið til þess að gera hlutina  og skipa fyrir. Ég held að það eigi bara nokkuð vel við hann þó svo að stundum finnist honum erfitt að þetta taki allt sinn tíma ;o)

Þangað til næst


sunnudagur, 15. apríl 2012

Uptade :)

Helgina fyrir páska komu Kalla og Gulli til okkar og voru hjá okkur í viku. Það var ýmislegt brallað á milli þess sem var slappað af. Það var farið í bíltúra, búðir, afmæli hjá Didda frænda og borðað fullt af góðum mat. Það var mjög góð tilbreyting frá hversdagsleikanum. Kærkomið frí/afslöppun frá skólanum. Við höfðum það mjög svo gott og værum við alveg til í fleiri heimsóknir frá fjölskyldu og vinum ;o)


Ég kláraði korselettið mitt á fimmtudaginn. Ég er svo ánægð að vera búin! Svo ánægð að hafa tekist það að klára  á næstum því réttum tíma (munaði einum degi) miðað við að ég byrjaði viku eftir að við fengum verkefnið.
Þetta munstraða er blúnda og innanvert við þær er dökk blátt skinn. Aftaná eru líka renningar með blúndu og skinni, enn allt annað er svart satin efni. Ótrúlegt enn satt er ég bara mjög sátt við samsetninguna hjá mér. Finnst þetta koma vel út :o)

Á morgun byrja ég í tveggja vikna starfsnámi. Ég er svolítið mikið stressuð fyrir því, en það hverfur vonandi fljótlega eftir að ég kem á staðin. Ég er að fara á litla saumastofu í Nörresundby (sem samvaksin við Álaborg). Saumastofan er staðsett heima hjá eigandanum, en hún er líka bara ein að vinna þarna. Hún gerir við föt fyrir fullt af búðum. Ég held að ég eigi meðal annars eftir að læra að stytta og leggja upp buxur. Það væri allavega mjög gott veganesti, þó svo að mér finnist það ekkert sérstaklega skemmtilegt! En hún er líka með samning við stóra brúðakjólabúð sem mér finnst mjög spennandi. Og brúðakjólatímabilið er að fara í fullt gang núna :o) Svo vonandi fæ ég aðeins að vera með í því. 

Ernir er líka að fara að byrja í sínu starfsnámi (eða vinnu), en hann verður í 6 mánuði. Ég held að hann sé mjög spenntur þó svo að stressið láti líka á sér kræla. En ég er viss um að það verði fljótt að hverfa. 
Það er því nóg að gera hjá okkur báðum og spennanndi vikur framundan :o)


mánudagur, 26. mars 2012

Nóg að gera

Það er sko búið að vera brjálað að gera síðustu vikur. Ég fékk frest til þess að skila verfninu mínu þar sem að ég sá ekki fram á að ég mundi ná því á réttum tíma. Það tók mun lengir tíma að gera möppuna en ég hafði reiknað með og voru því vinnudagarnir ansi langir. En þetta hafðist allt á endanum og kennarinn gaf mér góða umsögn fyrir verkefnið. Ég er svo ótrúlega ánægð með það sem kennarinn sagði og hlakka mikið til að geta farið að nota jakkann minn! Lofa að setja inn mynd af honum við tækifæri ;o)

Ernir keypti sér bíl á fimmtudaginn. Og fórum við því í bíltúr á laugardaginn til Århus. Það varð jú að prófa kaggann. Og já þetta er algjör kaggi miðað við hljóðin, skilst að það sé vegna þess að þetta er disel bíll. Annars er þetta mjög fínn bíll, sem á örugglega eftir að koma að góðum notum. Við erum allavega búin að fara tvisvar i Ikea og Bilka eftir að við fengum bílinn ;o) Enn ástæðan fyrir kaupunum er samt sú að Ernir er að fara í 6 mánaða starfsnám í Støvring sem er hérna rétt fyrir utan Álaborg. 

Við skoðuðum Your Rainbow Panorama eftir Ólaf Elíasson. Það er staðset á þaki Aros listasafnsins í Århus.  

Það var gaman að labba hringinn og sjá útsýnið yfir Århús í mismunandi litum.

Efri myndin er tekin í gegnum appelsínugult og gult gler á meðan neðri myndin var tekin undir berum himni.

Við fórum líka á safn sem heitir Den gamle by (Gamli bærinn). Þar er hægt að labba um og skoða gömul hús og muni og sjá hvernig þetta var í gamla daga. Á sumrin eru svo fólk á störfum í sumum af húsunum og margt um að vera. En þar sem að við vorum svo snemma á ferðinni miðað við dagatalið, þá var ekkert svoleiðis um að vera. En þá höfum við líka ástæðu til þess að fara og skoða bæinn aftur :o) Það er margt að skoða í þessum gamla bæ og ég mæli með því að þið farið þanað ef leið ykkar liggur til Århus.



Myndir frá Gamlabænum í Århus.

Það er sem sagt búið að vera nóg að gera hjá okkur síðustu vikurnar og það verður líka nóg að gera næstu vikurnar. Ég er komin á fullt í að gera korselett í skólanum, sem þarf helst að klárast á rúmri viku (sem betur fer er engin mappa í þetta skiptið).

Þangað til næst
Tinna Rut


laugardagur, 10. mars 2012

Allt er þegar þrent er...

...það vona ég allavega í þessu tilfelli! 
Ég er búin að eiga þrjá óhappadaga í röð núna. Eitt óhapp á dag kemur skapinu svo sannarlega ekki í lag. 
Í fyrradag klipti ég of stórt gat fyrir vasa á jakkanum sem ég er að sauma, í gær tapaði ég 200 krónum í miðbænum og í dag læsti ég lykilinn minn inni í skáp í ræktinni. Ég hló nú samt bara að þessu síðasta þó svo að það hafi verið svolítið vandræðalegt að fara fram í afgreiðsluna til þess að fá lánaða stóra klippu svo ég gæti klipt hengilásinn í sundur. En okkur Hafdísi tókst að klippa lásinn í sundur :o) 
Mér var hugsað til þess í gær að eitthvað hlyti að gerast í dag, ég er bara mjög ánægð með að það hafi ekki verið neitt alvarlegra enn að læsa lykillinn minn inni í skáp.


Vasanum náði ég að redda, hann verður bara aðeins stærri enn hann átti að vera. Annars gengur bara vel með verkefnið, er aðeins á eftir áætlun með möppuna en því verður reddað með löngum vinnudögum. Skil á fimmtudaginn og nóg að gera....

fimmtudagur, 1. mars 2012

Vorið er komið og grundirnar gróa...

....yndislegt veður allavega hjá okkur núna. 
Sól, smá vindur og ca 10°C. 
Fuglasöngur úr öllum áttum og fullt af fólki úti á göngu. 
Sumarfílingurinn er alveg að koma, allavegana er löngunin í ís farin að kræla á sér og það boðar bara sumar ;o) 


Þessi mynd er tekin í apríl í fyrra. 
Mikið hlakka ég til að geta farið aftur í svona ferð í dýragarðinn! :) 
Eða bara geta setið úti í garði og notið blíðunnar. 
Vonandi verður biðin ekki svo löng ;o)


mánudagur, 27. febrúar 2012

Lægð

Ég á mjög erfitt með að standast freistingar! Og þess vegna ákvað ég eftir að hafa farið þrjá daga í skólann í fríinu og gert sam' og sem ekkert að nú skyldi ég bara vera heima. Ég tók mér því langa helgi í frí, ætlaði að læra smá en það varð auðvitað ekki úr neinu. Ég veit ekki alveg hvað er að mér. Einhverstaðar týndi ég nennunni og metnaðinum. Ég þarf svo að taka mig saman og gefa sjálfri mér STÓRT spark í rassgatið!!! :o/
En ég mætti samt í skólann í dag með þá huggsun að nú skyldi þetta gerast. Ég vonast til þess að ég nái að klára munstrið mitt á morgun. Og þá get ég farið að gera allt hitt sem ég þarf að gera fyrir þetta verkefni. Smá spark, sem verður fastara með tímanum ;o)


Í gær kom ég mér vel fyrir í sófanum með þessar bækur og blað. VÁ hvað það var notarlegt að slappa af og njóta þess að skoða nýjar og nýlegar bækur. Ótrúlega langt síðan að ég hef notið þess svona að skoða bækur og hafa það kósý....meira af því takk fyrir ;o)


Og auðvitað gat ég ekki hamið mig og bakaði tvær gerðir af muffins á laugardaginn :o) Það er svo ótrúlega mikill munur að hafa hrærivel! Deigið verður svo mikið betra....algjör draumur ;o) elska það. Það er svo mikið skemmtilegra að baka núna :o) Sem er bæði gott og slæmt því við ætluðum jú að minka sætindin... 


Þangað til næst
Tinna

sunnudagur, 19. febrúar 2012

Konudagur


Fékk þessa KitchenAid í gjöf frá Erni. Ég er í skýjunum og brosið er mjög breitt...alveg út að eyrum! :o)


Græjan var prófuð í dag. Og auðvitað voru bakaðar bollur í tilefni af bolludeginum á morgun. En það var auðvitað ekki nóg að gera eina sort, svo ég bakaði líka sítrónuköku með bláberjum. Ný uppskrift sem ég varð að prófa. Og hún bragðast bara nokkuð vel. 

Ég er komin í vikufrí í skólanum (vetrarfrí). En ég ætla mér nú samt að mæta í skólann og læra því það er nóg að gera. Vona bara að kvefið sem ég er komin með stoppi stutt. Annars er það mjög freistandi að vera bara heima og hafa það kósý! :o)

Vona að bolludagurinn verði ykkur góður

miðvikudagur, 15. febrúar 2012

Skemmtun og kvartmál


Við skelltum okkur á þorrablót hjá íslendingafélaginu hérna í Álaborg á laugardaginn síðasta. Við borðuðum á okkur gat, sungum úr okkur röddina, dönsuðum af okkur skóna og skemmtum okkur frábærlega vel! ;o)


Síðustu dagar hafa svo farið í að teikna kvartmál. Fínnt að dunda sér við þetta, en leiðinlegt til lengdar! Og núna er ég allveg að vera búin að fá nóg ennnn það er fullt eftir :o/ 
Við fengum verkefni á mánudaginn í skólanum sem hljóðar upp á að hanna 15 flíkur, sauma eina af þeim (verður af vera með "öðruvísi" ermum) og gera allt sem því fylgir. Sem sagt stórt verkefni, stór mappa sem á að innihalda allt sem prófmappan á að innihalda. Það er verið að undirbúa okkur fyrir próf eftir tæpt ár. Innblásturinn á að vera frá áratugunum 1940 eða 1950. Spennandi verkefni  og nóg að gera! :o) 



miðvikudagur, 8. febrúar 2012

Nýtt upphaf

Ný önn, ný fæða, nýr hugsunarháttur og ég árinu eldri (og vonandi þroskaðari og allt það...). Já batnandi mönnum er best að lifa, eða svo er sagt! ;o) Við Ernir höfum ákveðið að breyta aðeins um lífsstíl, sem felst í því að bæta mataræðið og hreyfa okkur meira. En ég vil samt taka það skýrt fram að við erum ekki í megrun, það er bara plús ef nokkur kíló fjúka af ;o) Ég hef líka ákveðið að hætta að vera svona löt og fara að gera hlutina í staðin fyrir að hugsa bara um þá og mikla þá fyrir mér. Þetta gengur ekki lengur, allt of mikið sem mig langar að gera en ekkert gerist. Og núna VERÐ ég að gera þetta allt saman fyrst ég er búin að segja þetta hér (vona bara að ég falli ekki í fyrstu tilraun :o/ ).

Eitt af því sem mig langar líka að bæta mig í, er að skrifa hérna inn á þessa síðu. Þó það væri ekki nema smá í hvert skipti. Jafnvel bara mynd og nokkur orð. Það væri gaman!
Og enþá skemmtilegta ef ég fengi fasta lesendur og komment inn á milli. Það er svo hvetjandi! :o)



Þennan kjól saumaði ég á síðustu önn (það byrjaði ný önn á mánudaginn). Ég er rosalega ánægð með hann og verð að viðurkenna að mér finnst það pínu leiðinlegt að hafa ekkert tækifæri til þess að nota hann. En það kemur kannski seinna. 
Á þessari önn mun ég meðal annars læra að sauma korselett og korselett með innbygðum brjóstahaldara. Mun lika fá smá kennslu í undirfötum en við byrjum samt önnina á að læra um "óhefbundnar" ermar. Þetta legst bara vel í mig og það er sko alveg nóg að gera hjá okkur! :o)

Ég vona að þið munið vilja fylgjast með mér hérna á síðunni. En ég ætla að gera mitt besta í að skrifa hérna inn. Kannski ég setji mér bara fastann dag í það, en vonandi þarf þess ekkert ;o)

Þangað til næst :o)